Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif COVID-19 faraldursins á skólastarf í öllum framhaldsskólum á haustönn 2020. Könnun var send út í mun styttri útgáfu á haustönn en á vorönn til að meta breytingar, vegna áhrifa faraldursins á skólastarfið, á milli anna. Spurningarnar snerta því á einn eða annan hátt áhrif faraldursins á starf og vinnuaðstæður í framhaldsskólum á haustönn í samanburði við vorönn 2020.
Við ákvörðun á þýði framhaldsskóla var stuðst við lista yfir framhaldsskóla á heimasíðu Menntamálastofnunar. Netpóstur var sendur á skólastjórnendur og kennara ásamt könnun þann 11. desember 2020 og stóð til 27. Janúar 2021. Könnunin var send á samtals 1834 netföng starfsmanna í 34 framhaldsskólum. Alls voru 656 sem svöruðu könnun. Nemendur allra þátttökuskóla voru 24.125 nemendur á vorönn 2020. Fjöldatölur nemenda í skólunum voru fengnar frá Menntamálstofnun. Þau voru 590 sem sögðust starfa við kennslu, 138 sem stjórnendur því eru 72 sem bæði starfa við kennslu og sinna stjórnunarstöðum.
Heildarsvarhlutfall í könnun var 35,8% nokkuð lægra en var í könnun á vorönn (46,9%). Að minnsta kosti einn kennari eða skólastjórnandi svöruðu könnuninni í 33 skólum sem hún var send á. Þar af leiðir að könnnunin hefur náð til kennara og skólastjórnenda í 33 af 34 framhaldsskólum landsins sem voru á listanum yfir framhaldsskóla.